Meistaranám í nýsköpun og viðskiptaþróun


Viðskiptafræðideild, fyrir hönd Félags­vísinda­sviðs, og Verk­fræði- og náttúruvísindasvið taka höndum saman og bjóða upp á námskeiða­kjarna á sviði nýsköpunar og viðskipta­þróunar. Námið miðar að því að undirbúa nemendur fyrir nýsköpun í fjöl­breyttu sam­hengi, hvort sem það er með stofnun eigin fyrir­tækja, störfum innan sprota- eða vaxtar­fyrirtækja, eða við viðskiptaþróun stærri fyrirtækja.
Undirstaða námsins er námskeið um framkvæmd nýsköp­unar sem nær yfir tvær annir. Þar takast nemendur úr Viðskip­ta­fræðideild og nemendur af Verkfræði- og náttúru­vísindasviði saman á við þær áskoranir sem felast í nýsköpun, afurðaþróun og nýtingu viðskiptatækifæra. Nem­endur vinna saman að umfangsmiklu verkefni sem felur í sér afurðaþróun byggða á sérþekkingu þar sem viðskiptalegar forsendur tækifærisins eru í forgrunni.